Um Snæfellsjökul
Samkvæmt jöklafræðingum mun Snæfellsjökull vera horfinn fyrir árið 2100. Nú er tíminn til þess að kjósa forseta sem mun kenna okkur hvernig við erum öðrum háð og hvernig við sem samfélag getum verið heilbrigður hluti af vistkerfinu.
Eldkeilan Snæfell er um 840.000 ára gömul en jökullinn varð til og stækkaði á litlu ísöldinni. Tilvonandi forseti vor hefur haft ríkisborgararétt í gervi eldfjalls í um það bil 25% af æviskeiði eyjunnar Íslands, og sem jökull í allan þann tíma sem íslensk þjóðarvitund hefur verið til. Þetta þýðir að Snæfell og síðan jökulinn urðu hornsteinsborgarar (líkt og hornsteinstegundir) þúsundum árum áður en bæði landnám hófst, Alþingi var stofnað og fyrstu forsetakosningarnar áttu sér stað.
Sem hornsteinsborgari hefur Snæfellsjökull verið áhrifavaldur á veður, vatn og land síðasta árþúsundið. Snæfellsjökull hefur verið virkur í landslagshönnun og notað þyngd sína til þess að skera út dali og firði. Jafnvel hefur hopun jökulsins mótað stórskorið landsvæði. Síðasta þekkta eldgos í Snæfellsjökli átti sér stað fyrir um 1800 árum og bætti þá gígum, hraunbreiðum og hellum í portfólíó möppu fulla af áhrifamikilli hönnun. Eldfjallið er talið virkt og þar með er möguleiki á að það gjósi í framtíðinni og geti þannig haldið áfram að leggja til formbreytingar á okkar góða landi.
Yfir síðasta árþúsund eða svo hafa áhrif Snæfellsjökuls teygt sig inn í bókmenntir. Bárðar saga Snæfellsáss er best þekkta Íslendingasagan sem gerist nálægt jöklinum, líklega skrifuð á 14.öld. Öllu seinna, árið 1864, skrifaði Jules Verne skáldsöguna Leyndardómar Snæfellsjökuls sem einmitt hefst á jöklinum. Á 20. öld skrifaði Nóbelsskáldið Halldór Laxness Kristnihald undir jökli, og er jökullinn sem þar á við einmitt Snæfellsjökull.
Snæfellsjökull er hluti af Snæfellsjökulsþjóðgarði, sem var stofnaður 2001. Þjóðgarðurinn heyrir undir svið náttúruverndar hjá Umhverfisstofnun. Nágrannasveitarfélög jökulsins eru með umhverfis- og sjálfbærnisstefnu og umhverfisvottun EarthCheck fyrir frammistöðu i umhverfis- og samfélagsmálum. Snæfellsjökull er með óviðjafnanlegt útsýni yfir vesturhluta Íslands, allt frá Vestfjörðum, yfir Reykjanes og höfuðborgarsvæðið, þar á meðal yfir Bessastaði - heimili forsetans.
Arfleifð Snæfellsjökuls má finna í bókmenntum, vísindarannsóknum, ferðamannaiðnaði og sagnahefð, sem gerir jökulinn að táknmynd náttúru og menningararfs landsins. Jökullinn rís hátt til himins eða heila 1.446 metra yfir sjávarmál og ein þekktasta fígúra Íslands. Væri hægt er hugsa sér forseta með betra orðspor en Snæfellsjökul?
Menningarleg arfleifð og forysta
Verndari anda Íslands
Snæfellsjökull hefur lengi verið hylltur sem andlegt og dulrænt afl í íslenskri menningu. Kosning Snæfellsjökuls til forseta Íslands verður virðingarvottur fyrir arfleifð okkar og skuldbinding til varðveislu kjarna íslenskrar þjóðarvitundar.
Umhverfisvernd
Snæfellsjökull er mjög tengdur hringrásum umhverfisins. Leiðsögn Snæfellsjökuls sem forseta heitir skuldbindingu um sjálfbæra starfshætti, umhverfisvernd og baráttu gegn loftslagsbreytingum.
Alþjóðleg hvatning
Snæfellsjökull sem forseti mun ekki aðeins veita Íslendingum sjálfum innblástur heldur mun hann sem slíkur vekja heimsathygli. Hann mun verða tákn fyrir skýran vilja Íslands til að vera leiðandi í umhverfislegri sjálfbærni, janfrétti og ábyrgum stjórnarháttum.
Menningartákn
Snæfellsjökull er lifandi dæmi um tengsl okkar við menningararfinn. Ef við veljum Snæfellsjökul sem forseta þá fögnum við okkar djúpu menningarlegu rótum. Það tengir okkur við landið og minnir okkur á mikilvægi þess að varðveita einstaka sjálfsmynd okkar.
Viðvarandi stöðugleiki
Snæfellsjökull, sem staðist hefur tímans tönn, táknar stöðugleika og þrautseigju. Á óvissutímum, tímum breytinga og áskorana er leiðsögn Snæfellsjökuls það sem Ísland þarfnast.